Ársskýrsla
Nýherja
2014

Fjárhagur 2014

Tekjur
11.572 mkr.
EBITDA
827 mkr.
EBITDA%
7,1%
Framlegð
26,0%
Laun og launat. gj./tekjur
37,5%
Rekstrarkostn./
tekjur
21,5%
Eiginfjárhlutfall
16,7%
Veltufjárhlutfall
1,27
DSO
30 dagar
DPO
23 dagar
Veltuhraði birgða
5,8
Handbært fé frá rekstri
318 mkr.
Hluthafar info 1 Hluthafar info 2

ÁVARP STJÓRNAR­FORMANNS
OG FORSTJÓRA

Avarp benediktBenedikt Jóhannesson
Avarp finnurFinnur Oddsson

Á réttri braut

Rekstur Nýherjasamstæðunnar gekk vel á árinu 2014. Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði nam 827 milljónum, eða um 7,2% af veltu, og hagnaður eftir skatta var 259 milljónir, sem svarar til 31% arðsemi á eigið fé. Á undanförnum árum hefur rekstur Nýherja markast af miklum sveiflum, sem torveldar samanburð á milli ára. Engu að síður er ljóst að síðasta rekstrarár er eitt það besta í ríflega 20 ára sögu félagsins.

Eitt af meginverkefnum ársins var eftirfylgni við stefnumótandi áætlun sem mótuð var haustið 2013 með það að markmiði að efla rekstur félagsins og styrkja eiginfjárstöðu þess. Sérstök áhersla var lögð á að einfalda starfsemi samstæðunnar, efla þjónustu- og lausnaframboð og styrkja stöðu Nýherja sem leiðandi þjónustufyrirtækis á sviði upplýsingatækni, bæði innra starf og markaðssetningu. Vinna eftir nýrri stefnu gekk vel á síðasta ári og skilaði bæði góðum rekstrarbata og auknum stöðugleika.

Avarp eve 786

Nýjar markaðsáherslur

Í stefnumótun Nýherjasamstæðunnar er lögð áhersla á þjónustuhlutverk Nýherja og mikilvægi stöðugrar lausnaþróunar fyrir fyrirtækjamarkað. Til að styðja við hvoru tveggja voru mótaðar nýjar og ferskar markaðsáherslur fyrir samstæðuna og þeim hleypt var af stokkunum á haustmánuðum. Þar er sérstaklega dregið fram það hlutverk Nýherja að styðja helstu fyrirtæki og stofnanir landsins til árangurs með skilvirkari nýtingu upplýsingatækni á öllum sviðum rekstrar. „Með nýhaldsemi að leiðarljósi skapar Nýherji tæknifæri og tafarlausnir fyrir viðskiptavini.“

Einföldun, hagræðing og minni áhætta

Starfsemi Nýherja var einfölduð með skipulagsbreytingum og sölu á rekstrareiningum sem ekki féllu vel að annarri starfsemi samstæðunnar eða voru óarðbærar. Í mars var lokið við sölu á dótturfélögum Nýherja í Danmörku, Applicon A/S og Applicon Solutions A/S, en Dansupport A/S hafði verið selt í desember 2013. Í júní var starfsemi Tækjaleigu Nýherja seld.

Í október 2014 tók gildi nýtt skipulag móðurfélags Nýherja, en það felur í sér aukna áherslu á samvinnu tækni- og sölufólks um þróun lausna, markaðssetningu þeirra og sölu. Að auki styður skipulagið við sölu og þjónustu við nýjar lausnir á ýmsum sviðum. Nefna má lausnir tengdar snjalltækjum og lausnir í rafrænum viðskiptum og öryggismálum. Með nýju skipulagi er hagrætt í starfsemi félagsins og hún færð nær viðskiptavinum og samstarfsaðilum, viðbragðsflýtir aukinn og skerpt á sölustarfi.

Starfsfólki fækkaði um ríflega 100 og velta minnkaði um rétta tvo milljarða en samstæðan er mun sterkari á eftir.

Markvisst hefur verið unnið að því að efla innra starf og draga úr áhættu í rekstri. Það er sérlega ánægjulegt að Nýherji hlaut nýverið viðurkenningu Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, að undangenginni ítarlegri úttekt Capacent. Mikill þungi hefur svo verið á stýringu öryggismála, með áframhaldandi vottun stjórnkerfis upplýsingaöryggis, og á haustmánuðum náðist samkomulag við kröfuhafa Roku ehf. um slit á félaginu og niðurfellingu á dómsmálum á hendur Nýherja hf., sem dregur úr hættu á áföllum í rekstri.

Dótturfélög í sókn

Öll dótturfélög Nýherja, Applicon á Íslandi, Applicon í Svíþjóð og TM Software, skiluðu jákvæðri rekstrarafkomu á árinu og sum þeirra umtalsvert betri rekstri en á undanförnum árum. Sérlega mikilvægur viðsnúningur náðist í Svíþjóð þar sem taprekstur hefur verið viðvarandi undanfarin ár, en jafnframt er gert ráð fyrir að fjárfesting í vöruþróun bankalausna í SAP skili frekari rekstrarbata á næstu misserum. Mikið og gott samstarf er á milli Applicon félaganna í Svíþjóð og á Íslandi um þróun og þjónustu bankalausna. Að auki hefur Applicon á Íslandi tekist mjög vel við þróun lausna á öðrum sviðum, m.a. með eina íslenska mannauðs- og launakerfinu Kjarna sem selt er sem tölvuskýlausn og hefur hlotið mjög góðar viðtökur.

Servergaur2

Félag stofnað um TEMPO lausnir

Þó að hætt hafi verið viðamikilli starfsemi Nýherja á erlendri grund á síðasta ári, þá er enn mikil erlend eftirspurn eftir lausnum sem þróaðar hafa verið innan Nýherjasamstæðunnar. Þetta endurspeglast m.a. í kraftmiklu starfi TM Software, þar sem erlendar tekjur jukust um ríflega 80% á síðasta ári og eru nú nálægt helmingi af veltu þess félags. Þessi mikli vöxtur er einkum til kominn vegna velgengni TEMPO verkefnaumsjónar- og tímaskráningarlausna, sem hafa sannað sig alþjóðlega á síðustu misserum. Vinna við TEMPO lausnina hófst árið 2007 og sala og umsvif hafa aukist ár frá ári. Undir lok síðasta árs keypti félagið fjárhagslausnina FOLIO frá kanadíska fyrirtækinu Kitologic Inc. Kaupin eru mikilvægur þáttur í því að styrkja lausnaframboð undir vörumerkjum TEMPO sem nú býður upp á heildstæða fyrirtækjalausn í fremstu röð sambærilegra lausna á heimsvísu.

Yfir 6.000 fyrirtæki í meira en 100 löndum nota nú TEMPO hugbúnaðinn. Velta síðasta árs var nálægt sex milljónum Bandaríkjadala, samanborið við rúmlega þrjár milljónir dollara árið 2013. Í áætlunum fyrir TEMPO er gert ráð fyrir sambærilegum vexti á næstu árum, en til að styðja við slíkan vöxt og verðmætasköpun hefur verið ákveðið að skilja TEMPO frá rekstri TM Software. Nýtt fyrirtæki, TEMPO Software ehf., hefur verið stofnað til að taka við þróun og sölu samnefndra lausna en sérhæfðar lausnir á sviði heilbrigðis- og ferðaþjónustu verða áfram þróaðar undir hatti TM Software. Eftir breytinguna standa tvö afar öflug félög á sviði hugbúnaðarþróunar, með skýrt afmarkaðar áherslur, vörur og markaðssvæði.

Með stofnun félags um reksturinn eykst sýnileiki vörumerkisins TEMPO. Jafnframt aukast tækifæri til samstarfs við utanaðkomandi aðila um að styðja við áframhaldandi hraðan vöxt, m.a. með tengslamyndun og fjármögnun á vöruþróun og markaðsstarfi.

Breytt skipulag TM Software skerpir á starfsemi og eykur svigrúm til þróunar á vörum sem tengjast núverandi sérsviðum, heilbrigðisþjónustu, flug- og ferðamannaþjónustu, rafrænum viðskiptum og þjónustuvefjum.

Öflugt fólk skapar verðmæti

Góð niðurstaða ársins 2014 er ánægjuleg staðfesting þess að nýjar áherslur í rekstri Nýherja séu til þess fallnar að auka trú á félagið og skapa verðmæti fyrir eigendur, viðskiptavini og samfélagið allt. Þótt stór skref hafi verið stigin á síðasta ári er mikil vinna eftir til þess að ná markmiðum stjórnar um verðmætasköpun. Helstu verkefni stjórnar og stjórnenda Nýherja á nýju ári miða að því að styrkja eiginfjárstöðu félagsins enn frekar. Því verður fyrst og fremst náð með því að vinna áfram að aukinni skilvirkni í rekstri, betri þjónustu við viðskiptavini og bættri afkomu, en einnig verður horft til skipulags og uppbyggingar samstæðunnar og mögulegra samstarfs- og fjárfestingartækifæra.

Sá árangur sem hefur náðst í rekstri Nýherja byggir á hópi framúrskarandi starfsfólks, nú ríflega 450 manns á Íslandi og í Svíþjóð. Við viljum, fyrir hönd félagsins, færa starfsmönnum bestu þakkir fyrir frábært starf sem hefur skilað einni bestu rekstrarniðurstöðu í sögu Nýherja. Með slíku starfi verður Nýherji enn betri vinnustaður og um leið betri fjárfestingarkostur. Félagið er á réttri braut og það er bjart framundan.

Benedikt Jóhannesson, formaður

Finnur Oddsson, forstjóri

Skipurit

Skipurit mobile

STJÓRNENDUR

Finnur

Finnur Oddsson

Finnur Oddsson forstjóri Nýherja hf. Hann tók við starfi aðstoðarforstjóra Nýherja í nóvember 2012 og við starfi forstjóra í ágúst 2013.

Finnur starfaði um fimm ára skeið sem framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs. Hann er með BA próf í sálfræði frá Háskóla Íslands, M.A. og Ph.D gráðu í sömu grein frá West Virginia University í Bandaríkjunum og auk þess AMP í viðskiptafræði frá IESE á Spáni.

Finnur starfaði um árabil sem lektor við Háskólann í Reykjavík og stýrði þar meðal annars uppbyggingu á MBA námi HR og Stjórnendaskóla HR, en þar á undan sem stjórnunarráðgjafi hjá Aubrey Daniels International í Bandaríkjunum.

Drofn

Dröfn Guðmundsdóttir

Dröfn Guðmundsdóttir er mannauðsstjóri Nýherja, en hún hóf störf hjá félaginu í febrúar 2013.

Dröfn hefur mikla reynslu á vettvangi mannauðsmála. Hún starfaði sem fræðslustjóri hjá Leikskólum Reykjavíkur og síðan sem mannauðsráðgjafi á Menntasviði Reykjavíkurborgar eftir sameiningu leik- og grunnskólamála frá 2003-2007, sem mannauðsráðgjafi hjá Straumi fjárfestingabanka frá 2007 til 2009, fræðslustjóri Arion banka frá 2009-2011 og starfaði sem mannauðsstjóri hjá Fjármálaeftirlitinu 2012-2013.

Hún lauk B.A. prófi í sálfræði frá Háskóla Íslands og framhaldsnámi í sálfræði með áherslu á vinnu- og skipulagssálfræði frá Háskólanum í Giessen í Þýskalandi.

Emil

Emil G. Einarsson

Emil Einarsson er framkvæmdastjóri Viðskipta- og þjónustustjórnunar og leiðir jafnframt viðskiptaþróun fyrir Nýherja.

Emil starfaði frá 1985 til 1992 sem kerfisfræðingur, m.a. við innleiðingu og hönnun nýrrar gjaldkeralausnar fyrir banka/sparisjóði á Íslandi og síðan sem söluráðgjafi hjá IBM Íslandi fyrir miðlungsstórar og stærri móðurtölvur. Við stofnun Nýherja árið 1992 var hann söluráðgjafi og hópstjóri til 1995 en frá þeim tíma var hann framkvæmdastjóri við sölu á IBM tölvubúnaði eða fram til febrúar 2005. Hann var framkvæmdastjóri Sölusviðs frá 2005-2011 og framkvæmdastjóri Vörusviðs 2011-2014.

Gunnarz

Gunnar Zoëga

Gunnar Zoëga er framkvæmdastjóri Lausna og þjónustu.

Gunnar hóf störf hjá TM Software árið 2003 og hefur síðan gegnt ýmsum störfum þar, hjá Skyggni og síðan hjá Nýherja, sem deildarstjóri Umsjár og framkvæmdastjóri Tæknisviðs.

Gunnar lauk BS í viðskipta- og tölvunarfræði frá University of South Carolina og kerfisfræði frá Háskólanum í Reykjavík.

Gunnarp

Gunnar Már Petersen

Gunnar Petersen er framkvæmdastjóri fjármálasviðs Nýherja hf. Gunnar er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, MSc í fjármálum frá Háskólanum í Reykjavík og löggiltur verðbréfamiðlari.

Hann var fjármálastjóri Iceland Express hf. 2011-2012 og fjármálastjóri Landic Property hf. frá 2006 til 2010. Áður hafði Gunnar starfað sem viðskiptastjóri og sérfræðingur hjá HSH Nordbank í Kaupmannahöfn, Verðbréfastofunni hf. og Sparisjóðabanka Íslands hf.

Ingimar

Ingimar G. Bjarnason

Ingimar G. Bjarnason hefur gegnt starfi framkvæmdastjóra Applicon á Íslandi frá nóvember 2008. Ingimar hóf störf á hugbúnaðarsviði Nýherja hf. í febrúarmánuði 1998 og starfaði þar og síðan hjá Applicon ehf. fram til ágústmánaðar 2006. Þá tók Ingimar við sem framkvæmdastjóri Applicon Solutions Ltd. í Bretlandi.

Ingimar lauk prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 1996 og síðan MBA prófi frá IESE Viðskiptaháskólanum í Barcelona 2003.

Agust

Ágúst Einarsson

Ágúst Einarsson er framkvæmdastjóri TM Software. Hann hefur veitt TM Software forystu frá ársbyrjun 2007, og hefur starfað hjá félaginu frá árinu 2003. Hann var áður framkvæmdastjóri TrackWell Software, Skyggnis og SAP og IBM deildar Nýherja.

Ágúst er með MS-gráðu í iðnaðarverkfræði frá Háskólanum í Álaborg og BS-gráðu í vélaverkfræði frá sama háskóla.

Thorvaldur

Þorvaldur Þorláksson

Þorvaldur Þorláksson er framkvæmdastjóri Heildsölu og dreifingar hjá Nýherja. Þorvaldur var áður deildarstjóri Lausna og þjónustu hjá Nýherja. Hann hefur fjölbreytta reynslu úr íslensku atvinnulífi, leiddi meðal annars uppbyggingu og rekstur nýsköpunarhúss O2 fyrir Viðskiptaráð Íslands. Þá var hann framkvæmdastjóri SMI Iceland ehf. (Smáratorg) 2007-2009, framkvæmdastjóri Bónusvídeós ehf. 2003-2007 og markaðsstjóri og aðstoðarframkvæmdastjóri Smáralindar á árunum 2000-2003.

Þorvaldur er rekstrarfræðingur frá Háskólanum á Bifröst.

Tomas

Tomas Wikström

Tomas Wikström er framkvæmdastjóri Applicon Svíþjóð, frá 2012. Hann gekk til liðs við félagið árið 2000 og hefur sinnt ýmsum verkefnum hjá félaginu.

Tomas er með M.Sc-gráðu í eðlisverkfræði frá háskólanum í Uppsölum.

Nýherji

ÞJÓNUSTUFYRIRTÆKI Í UPPLÝSINGATÆKNI

Nýherji hf. er þjónustufyrirtæki í upplýsingatækni. Markmið starfsfólks Nýherja er að veita framúrskarandi þjónustu og sérfræðiþekkingu og aðstoða viðskiptavini við að ná enn betri árangri í sínum rekstri.

Afkoma Nýherja var ágæt á árinu 2014 og mun betri en árið á undan. Tekjur námu 8.350 mkr. og hækka um 2,4% á milli ára. Vörusala gekk vel, sérstaklega á síðari hluta árs og eftirspurn eftir tækni- og sérfræðiþjónustu jókst í takti við áætlanir.

Meiri eftirspurn eftir hýsingu og rekstri tölvukerfa

Eftirspurn eftir hýsingar- og rekstrarþjónustu á upplýsingatæknikerfum fyrirtækja og stofnana hefur vaxið hröðum skrefum á liðnum árum og er í takti við sóknaráherslur félagsins í upplýsingatækni.

Mörg af stærstu fyrirtækjum og stofnunum landsins treysta Nýherja fyrir hönnun, viðhaldi og rekstri upplýsingatæknikerfa sinna. Viðskiptavinahópur Nýherja á þessu sviði er afar breiður og fjölbreyttur, en hann nær til um 10% af vinnuafli landsins.

Mjög góður vöxtur var í sölu prentlausna Nýherja, Rent A Prent. Nýherji rekur nú rúmlega 1.100 prenttæki í fjarvöktun hjá yfir 120 fyrirtækjum og á um 230 stöðum um allt land.

Á haustmánuðum hóf Nýherji kynningu og sölu á hugbúnaðarlausnum á sviði markaðsmála, öryggismála, rafrænna viðskipta og fyrir snjalltæki og var þeim vel tekið. Nýjar þjónustulausnir eru í stöðugri þróun svo tryggja megi að lausnaframboð Nýherja sé í takti við væntingar viðskiptavina.

Breiður hópur viðskiptavina í upplýsingatækni

Fjölmörg fyrirtæki sömdu um tækniþjónustu við Nýherja á árinu. Má þar nefna Vátryggingafélag Íslands (VÍS) um rekstur á útstöðvum upplýsingatæknikerfa og notendaþjónustu, flugfélagið Norlandair um rekstur á upplýsingatæknikerfum félagsins og sjávarútvegsfyrirtækið Icelandic Group um hýsingu á tölvukerfi. Einnig var gengið til samninga við Festi og Regin fasteignafélag um hýsingu og rekstur á miðlægum upplýsingatæknikerfum.

Ölgerðin og Kvos (Oddi) voru meðal þeirra fjölmörgu fyrirtækja sem tóku í notkun Rent A Prent þjónustu frá Nýherja á árinu. Ennfremur festi Icelandair kaup á miðlægum vél- og hugbúnaði hjá Nýherja fyrir upplýsingatæknikerfi félagsins. Nýherji tók jafnframt að sér hýsingu og rekstur á netþjónaumhverfi Meniga á Íslandi auk þess að reka netþjónaumhverfi fyrir viðskiptavini Meniga í erlendu tölvuskýi.

Servers

Þriðjungi fleiri Lenovo tölvur

Eftirtektarverður árangur náðist í sölu á Lenovo tölvubúnaði á árinu. Um 12 þúsund Lenovo tölvur voru seldar, sem er ríflega 30% söluaukning milli ára. Einnig hefur orðið veruleg aukning í sölu á Lenovo spjaldtölvum. Lenovo hefur vaxið ásmegin í sölu á tölvu- og tæknibúnaði á liðnum árum og er m.a. stærsti framleiðandi PC tölva í heimi auk þess að vera meðal stærstu söluaðila spjaldtölva og snjallsíma, en fyrirtækið festi kaup á farsímahluta Motorola á árinu. Lenovo var lengst af þekkt fyrir sölu á tölvubúnaði til fyrirtækja en hefur nú sótt í auknum mæli fram í sölu á fartölvum, spjaldtölvum og snjallsímum á einstaklingsmarkaði. Fyrirtækið hefur einnig hafið sölu á IBM System x-netþjónum, sem er liður í aukinni áherslu fyrirtækisins á sölu miðlægs búnaðar til fyrirtækja, og er Lenovo orðinn þriðji stærsti netþjónaframleiðandi heims. Þá er gert ráð fyrir að fyrirtækið hefji innreið sína á fleiri símamarkaði á komandi ári.

Öflug vörumerki í vél- og hugbúnaði

Nýherji hefur afar sterka stöðu í þjónustu og ráðgjöf um vélbúnað fyrir upplýsingatæknikerfi fyrirtækja. Ráðgjafar Nýherja hafa mikla reynslu og djúpa þekkingu á þessu sviði auk þess sem fyrirtækið býr yfir áralöngu og traustu sambandi við birgja eins og IBM, Lenovo og fleiri. Framboð Nýherja á miðlægum vélbúnaði samanstendur af IBM BladeCenter, IBM System x-netþjónum frá Lenovo, IBM Power Systems, IBM System z-stórtölvum, IBM System Storage, varaaflgjöfum, ásamt kælibúnaði og rekkum frá APC.

Nýherji býður ennfremur hugbúnaðarlausnir frá þekktum og traustum framleiðendum fyrir stór sem smá fyrirtæki sem þurfa lausnir fyrir rafræn viðskipti, samþættingu kerfa, samskipti notenda, meðhöndlun gagna, kerfisstjórnun og hugbúnaðarþróun. Má þar nefna IBM, Microsoft og fleiri.

Hámarksöryggi í rekstri kerfa hefur verið staðfest af The British Standards Institution á Englandi (BSI-UK) með vottun á stjórnkerfi upplýsingaöryggis Nýherja samkvæmt alþjóðlegum staðli ISO 27001.

Öryggisferlar sem styðja við framúrskarandi þjónustustig

Nýherji styðst við ITIL þjónustuferla (Information Technology Infrastructure Library) til að tryggja framúrskarandi þjónustustig í upplýsingatækni. Öryggi í rekstri kerfa hefur verið staðfest af The British Standards Institution á Englandi (BSI-UK) með vottun á stjórnkerfi upplýsingaöryggis Nýherja samkvæmt alþjóðlegum staðli ISO 27001. Vottunin nær yfir alla starfsemi Nýherja, þar með talin kerfisrými í Reykjavík, Kópavogi, á Akureyri og Egilsstöðum.

Tickets

Eflt samstarf við endursöluaðila

Með nýju skipulagi móðurfélags (sjá neðar) var aukinn þungi settur í samstarf við endursöluaðila, sem skilaði sér í meiri eftirspurn eftir einstaklingsbúnaði frá leiðandi vörumerkjum á borð við Sony, Canon, Bose og Lenovo.

Í verslun Nýherja í Borgartúni, á Akureyri og á netverslun.is er sem fyrr mikið úrval af fartölvum frá Lenovo, sjónvörp og annar hljóðbúnaður frá Sony og Bose, myndavélabúnaður frá Canon og Sony og prentbúnaður frá Canon. Auk þess er þar að finna ýmiss konar aukabúnað fyrir hljóð- og myndlausnir, tölvubúnað og margvíslegar rekstrarvörur. Í verslun Nýherja fá viðskiptavinir, hvort heldur einstaklingar eða fyrirtæki, faglega ráðgjöf við val á búnaði og lausnum.

Nýtt skipulag móðurfélags

Nýherji kynnti í ágúst nýtt skipulag fyrir starfsemi móðurfélagsins. Markmiðið með skipulagsbreytingunum er að bæta þjónustu og efla sölustarf félagsins. Ennfremur að gera félagið hæfara til að takast á við örar breytingar í upplýsingatækni með því að nýta betur sérþekkingu starfsfólks og efla nýsköpun. Tekjusvið félagsins verða tvö, Lausnir og þjónusta og Heildsala og dreifing. Fyrra sviðinu verður skipt í fjórar deildir eftir lausnum þar sem hver deild er ábyrg fyrir vörustjórn á viðkomandi sviði, markaðssetningu, sölu og tæknilegum stuðningi við vörur og þjónustu. Heildsala og dreifing sér um verkstæðisþjónustu, innflutning, lagerhald, heildsölu og dreifingu á öllum vörum Nýherja til endursöluaðila. Nýtt svið viðskipta- og þjónustustjórnunar ber svo ábyrgð á viðskiptastjórnun gagnvart lykilviðskiptavinum Nýherja, almennri samræmingu á sölustarfi samstæðunnar, gæðastjórnun, þjónustueftirliti og umbótastarfi. Nýtt skipulag Nýherja tók gildi í byrjun október og hefur strax skilað ávinningi með markvissara sölustarfi og aukinni hagkvæmni. Á sama tíma hefur Nýherji aukið vitund um mikilvægi þjónustu meðal starfsfólks og haldið þannig áfram að auka þjónustugæði gagnvart viðskiptavinum.

Dönsk félög úr samstæðunni

Nýherjasamstæðan seldi danska félagið Dansupport A/S til fjarskipta- og upplýsingatæknifélagsins Jansson Kommunikation A/S um áramótin 2013 og 2014. Þá seldi Nýherjasamstæðan alla starfsemi Applicon A/S og Applicon Solutions A/S í Danmörku í mars. Kaupandinn var Ciber A/S í Danmörku, samstæða fyrirtækja á sviði upplýsingatækni.

Ennfremur var gengið frá sölu á starfsemi tækjaleigu Nýherja til Sonik tækni ehf., sem tók yfir reksturinn 15. júní. Nýherji mun áfram bjóða lausnir og þjónustu á sviði hljóð- og myndlausna fyrir fyrirtæki og stofnanir.

Salan á Dansupport, Applicon og tækjaleigu Nýherja var í takti við nýjar áherslur sem felast í að efla þjónustu og lausnaframboð í upplýsingatækni á íslenskum fyrirtækjamarkaði.

Horfur í rekstri Nýherja á fyrsta ársfjórðungi 2015 eru ágætar.

Applicon félögin

Applicon er norrænt ráðgjafar- og þjónustufyrirtæki á sviði viðskiptahugbúnaðar sem leggur áherslu á valdar atvinnugreinar sem byggja á lausnum frá SAP, Calypso og Advent, ásamt eigin hugbúnaði.

Applicon félögin eru tvö að tölu; Applicon á Íslandi og Applicon í Svíþjóð. Starfsemi Applicon í Danmörku var seld úr samstæðu Nýherja í mars 2014.

Mikið er lagt upp úr samstarfi milli Applicon félaganna tveggja um sameiginlega uppbyggingu og nýtingu lausna á norrænum markaði auk samstarfs við önnur félög Nýherjasamstæðunnar.

Applicon á Íslandi

Applicon ehf. sérhæfir sig í ráðgjöf, þjónustu og þróun lausna á sviði viðskiptahugbúnaðar og viðskiptagreindar. Félagið býður lausnir frá SAP en sérhæfir sig einnig í gerð alhliða viðskiptalausna og kerfisveituþjónustu með Vigor hugbúnaði.

Applicon

Tekjur hækkuðu um 7,8% á milli ára og voru 990 mkr. árið 2014. Afkoma félagsins á árinu var góð og umfram áætlanir.

Árið einkenndist af fjölbreyttum verkefnum, m.a. uppskiptingu á sölu og dreifingu hjá Orkuveitu Reykjavíkur, innleiðingu á SAP áætlunar- og samstæðukerfum og ráðgjöf á sviði fjárhags- og vörustjórnunar hjá nýjum viðskiptavinum.

Tímabilið var ennfremur nýtt í þróun eigin lausna, þá sér í lagi á Kjarna (kjarni.applicon.is), sem er lausn á sviði mannauðs- og launamála og er hýst í Nýherja skýinu. Viðtökur á kerfinu hafa verið afar góðar og nokkur fyrirtæki hafa nú þegar tekið lausnina í sína þjónustu.

Þá voru tekin skref með nýtingu SAP HANA gagnagrunnstækni sem dregur stórlega úr kostnaði við rekstur á upplýsingatækni, en í lok árs var samið við Lýsingu um kaup og innleiðingu á SAP HANA. Einnig var unnið að áhugaverðum tækifærum með systurfyrirtæki Applicon í Svíþjóð.

Verkefnastaða og horfur Applicon á Íslandi eru ágætar.

Applicon í Svíþjóð

Applicon í Svíþjóð sérhæfir sig í ráðgjöf og þjónustu við fjármálafyrirtæki í Svíþjóð og víðar á Norðurlöndum. Tekjur félagsins voru 965 mkr. á árinu. Þó að afkoma félagsins hafi verið undir áætlunum, þá var rekstur félagsins í jafnvægi sem er jákvæður viðsnúningur frá árinu 2013.

Nýting á ráðgjöfum var góð en lakari afkoma fyrri hluta ársins skýrist af því að félagið hefur lagt aukna áherslu á þróun og sölu á skýþjónustu sem tengjast bankalausnum í SAP og byggir á nýlegri innleiðingu bankakerfa fyrir Landshypotek bankann í Svíþjóð.

Horfur hjá félaginu eru jákvæðar og vinna hafin við stærri verkefni sem samið var um á árinu.

TM Software

Hugbúnaðarfyrirtækið TM Software sérhæfir sig í framleiðslu á eigin hugbúnaðarvörum og veitir þjónustu og ráðgjöf um sérhæfðar hugbúnaðarlausnir fyrir viðskiptavini. Hjá félaginu starfa um 120 manns.

Félagið leggur áherslu á þrjú meginsvið; þróun á eigin hugbúnaði á heilbrigðissviði, þróun á hugbúnaði fyrir verkefnaumsjón og tímaskráningar (TEMPO) og ráðgjöf og þróun á sérhæfðum hugbúnaðarlausnum fyrir innlenda og erlenda viðskiptavini.

Rekstur TM Software gekk vel á fjórða ársfjórðungi og árinu í heild. Tekjur félagsins jukust um 31% frá sama tímabili í fyrra og námu 1.663 mkr. Erlendar tekjur af TEMPO verkefnaumsjónar- og tímaskráningarlausn jukust um 84% milli ára og voru 45% af heildartekjum fyrirtækisins.

Gengið var frá mikilvægum þróunar- og þjónustusamningum á síðasta ársfjórðungi 2014, bæði innanlands og erlendis. Sérhæfðum þróunarverkefnum innanlands á sviði veflausna fjölgar stöðugt og erlendis vinnur veflausnasvið að verkefnum með samstarfsaðilum bæði í N-Ameríku og Evrópu. Á árinu 2014 var TM Software valið fyrirmyndarfyrirtæki VR, annað árið í röð.

Tmsoftware info 1 mobile Tmsoftware info 2 mobile

TEMPO-mikill vöxtur

Sala á TEMPO, sem eru markaðsleiðandi hugbúnaðarlausnir fyrir verkumsjón, verkefnastjórnun, fjárhagsáætlanagerð og skýrslugerð fyrir Atlassian JIRA, jókst á öllum markaðssvæðum á árinu, en tekjur af lausninni námu 737 mkr. og allar í erlendri mynt. Til að styðja við áframhaldandi vöxt hefur verið lögð enn meiri áhersla á þróun á TEMPO vörum og stöðugildum fjölgað um 20, en heildarfjöldi starfsfólks í TEMPO lausnum er 50.

Tmsoftware

TEMPO, sem upphaflega var þróuð sem innanhússlausn hjá félaginu, var sett á markað á árinu 2008 og hefur afar góður gangur verið í sölu á lausninni frá upphafi. TEMPO Timesheets var til að mynda mest sótta viðbótin (add-on) á Atlassian Marketplace á árinu 2012 auk þess að skapa mestar tekjur á árinu 2013. Þá var TEMPO Planner tekjuhæsta viðbótin á árinu 2014. Undir lok ársins gerði félagið samkomulag um kaup á FOLIO hugbúnaðarlausn frá kanadíska fyrirtækinu Kitologic Inc. Með kaupunum munu fjárhagslausnir bætast við TEMPO Timesheets, TEMPO Planner og TEMPO Books og þar með skapast öflug heildarlausn fyrir fyrirtæki.

Yfir 6.000 fyrirtæki í meira en 100 löndum nota TEMPO til að auka vinnuhagræði og framleiðni þ.á.m. Disney, eBay, Amazon, AT&T, Oracle, BMW, Dell og Pfizer. Til að styðja við áframhaldandi vöxt TEMPO og efla og skerpa á starfsemi TM Software var ákveðið að skilja rekstur TEMPO frá rekstri TM Software og stofna um það sér fyrirtæki, TEMPO Software ehf., sem hóf starfsemi 1. febrúar 2015.

Vera heilsuvefur valinn besti íslenski vefurinn

Verkefnisstaða sérhæfðra hugbúnaðarlausna er góð en tekjur hafa vaxið um 6% milli ára. Verkefni fyrir heilbrigðis- og ferðaþjónustu eru þar fyrirferðarmest.

Áframhaldandi vöxtur í ferðamannaþjónustu hefur skapað fjölmörg tækifæri í þróun lausna og þjónustu fyrir flug- og ferðamannaþjónustu. Félagið mun einbeita sér enn frekar að þróun sérlausna fyrir þennan vettvang og aðstoða fyrirtæki þannig við að eflast á þessum ört vaxandi markaði á Íslandi.

Eitt stærsta verkefni TM Software á árinu var innleiðing heilbrigðislausnasviðs á Veru-heilsuvef. Vefurinn, sem var unninn í samstarfi við Embætti landlæknis og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, gerir almenningi kleift að eiga í rafrænum samskiptum við heilbrigðisþjónustuna, fá aðgang að eigin sjúkraskrám ásamt möguleika á að skrá upplýsingar um eigin heilsu. Heilsuvefurinn gerir notendum m.a. mögulegt að bóka tíma í heilbrigðisþjónustu (t.d. hjá lækni eða heilsugæslu), óska eftir endurnýjun á lyfseðli, senda fyrirspurn til heimilislæknis og eiga í öruggum samskiptum við lækninn, skoða óútleysta lyfseðla og lyfseðla sem viðkomandi hefur leyst út síðustu þrjú ár ásamt því að skoða helstu atriði úr eigin sjúkraskrá.

Vera heilsuvefur var valinn besti íslenski vefurinn þegar Íslensku vefverðlaunin voru afhent í lok janúar 2015.

Góðar horfur eru í rekstri.

Mannauður

Starfsfólk Nýherja og dótturfélaga skipar höfuðsess í velgengni fyrirtækjanna en starfsmannastefnan er grundvölluð á þeirri meginstefnu að starfsmenn njóti ánægju og velferðar í störfum sínum.

Hjá samstæðunni starfar fjölbreyttur hópur af hæfu, áreiðanlegu og traustu starfsfólki, sem sýnir frumkvæði í starfi, veitir góða þjónustu og tekur virkan þátt í framþróun samstæðunnar í síbreytilegu umhverfi.

Þekking starfsmanna ásamt góðum starfsanda og starfsánægju skipa veigamikinn sess hjá samstæðunni. Þar að auki er lögð áhersla á að starfsmenn fái tækifæri til að þroskast og þróast í starfi. Enda á starfsfólkið og velferð þess stóran þátt í því að samstæðan dafni og þroskist, öllum til hagsbóta.

Mannaudur info 1 Mannaudur info 2

Stöðugildi og kynjahlutfall

Meðaltalsstöðugildi hjá samstæðunni á árinu voru 411 á Íslandi og 46 í Svíþjóð.

Í upphafi árs var fjöldi stöðugilda á Íslandi 393 en í lok árs voru stöðugildin 411. Stöðugildum fjölgaði um 18 á árinu ef litið er til samstæðunnar. Hjá TM Software var fjölgun um 28 starfsmenn á árinu, fjölgun um 2 hjá Applicon, en hjá Nýherja fækkaði stöðugildum um 13. Stöðugildi hjá Applicon í Svíþjóð héldust nokkurn veginn óbreytt á árinu 2014.

Kynjahlutfall í samstæðunni er þannig að 25% starfsmanna eru konur og 75% karlar. Aðeins er mismunandi hvernig kynjahlutföllin dreifast, en að meðaltali er hlutfall kvenna hæst í Svíþjóð (33%) en lægst hjá Nýherja (17%). Það hefur loðað við upplýsingatæknigeirann að karlar séu í meirihluta, en Nýherjasamstæðan hefur einsett sér með skýrri stefnu og framkvæmdaáætlun jafnréttismála að vinna áfram að því langtímamarkmiði að fjölga konum innan samstæðunnar.

Þekking og hæfni

Samstæðan leggur áherslu á að starfsfólk fái tækifæri til að efla faglega og persónulega hæfni sína auk þess sem krafa er gerð um að starfsfólk hafi haldgóða þekkingu á þeim vörum og þjónustuleiðum sem að því snúa.

Mannaudur

Sem fyrr var lögð áhersla á þekkingaröflun innan samstæðunnar og var starfsfólk ötult við að sækja sér þekkingu og efla færni sína í formi fjarnáms, námskeiða og ráðstefna. Einnig var gert sérstakt átak í skráningu á hæfni og þekkingu starfsmanna, en rétt skráning á þessum þáttum gerir samstæðunni kleift að halda vel utan um menntunarstig fyrirtækjanna.

Hreyfing og heilsa

Starfsmenn Nýherjasamstæðunnar eru duglegir þegar kemur að hreyfingu, vistvænum samgöngum og keppnum sem tengjast hreyfingu. Hjólreiðamenn náðu frábærum árangri í ár, en 48 starfsmenn samstæðunnar tóku þátt í Hjólað í vinnuna, sem fram fer í maí. Spartans, lið Nýherja, vann til verðlauna fyrir flesta hjólaða kílómetra, en samtals hjólaði liðið rúma 6.503 km. Nýherji átti svo 10 manna lið í WOW Cyclothon sem náði þriðja sæti í þessari hörðu keppni og var liðinu vel fagnað af samstarfsfélögum þegar heim var komið.

Mannaudur info 3 Mannaudur info 4

Nýherjasamstæðan styrkir starfsmenn sína til þátttöku í Reykjavíkurmaraþoninu og tóku um 50 starfsmenn þátt í hlaupinu í ár. Í maraþoninu safnaði starfsfólk samstæðunnar ríflega 500 þúsund kr. til góðgerðamála. Samstæðan lagði til 500 kr. fyrir hvern kílómetra sem starfsfólkið hljóp.

Félagslíf

Hjá samstæðunni starfar hópur skemmtilegs fólks sem tekur virkan þátt í þeim fjölmörgu viðburðum sem boðið er upp á. Starfsmannafélögin og klúbbarnir innan samstæðunnar eru mjög virkir auk þess sem fyrirtækið stendur reglulega fyrir viðburðum. Meðal viðburða á árinu má nefna vel heppnaða árshátíð, vorferð, golfmót, fjölskyldudag, haustfagnað, jólahlaðborð og fleira.

Annar mikilvægur liður í félagslífi starfsfólks samstæðunnar er hið frábæra kaffihús Miðjan. Það er rekið í samvinnu við Kaffitár og hefur vakið mikla ánægju enda fara þar fram skemmtileg skoðanaskipti yfir ilmandi kaffi- eða tebollum.

Vinnustaðagreining

Í lok árs var vinnustaðagreining framkvæmd hjá Nýherja, TM Software og Applicon. Vel yfir 80% starfsmanna tóku þátt í könnuninni, sem er gagnlegt verkfæri til að greina hvað vel er gert og hvað má betur fara í starfsumhverfi innan samstæðunnar. Langtímamarkmið okkar er að vera einn eftirsóknarverðasti vinnustaður í upplýsingatækni á Íslandi og eru slíkar greiningar því mikilvægar þegar kemur að því að leita leiða til að gera betur.

NÝHERJI Í SAMFÉLAGINU

ÁHERSLA Á TÆKNIMENNTUN OG NÝSKÖPUN

Nýherji leggur áherslu á að efla tengsl tæknigreina á mismunandi skólastigum við atvinnulífið, ýta undir nýsköpun í tæknigreinum, hvetja nemendur til að hefja nám í slíkum greinum, efla stoðir slíks náms og tryggja nægilegt framboð framúrskarandi tæknimenntaðs starfsfólks á komandi árum.

Nýherji styrkir verkefni sem hafa það markmið að efla nýsköpun og hvetja ungt fólk til þátttöku í tæknigreinum.

Forritunarkeppni framhaldsskólanna

Forritunarkeppni framhaldsskólanna hefur verið haldin í fjölmörg ár og hefur aðsókn að keppninni aukist ár frá ári. Keppnin er ekki eingöngu ætluð þeim sem hafa mikla forritunarkunnáttu heldur öllum þeim sem hafa áhuga á forritun.

Nyherji i samfelaginu

Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema

Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema við Háskóla Íslands er öflugur vettvangur lifandi verkfræði þar sem nemendur láta reyna á hugmyndaflugið og hæfileikann til að hanna og smíða tæki sem leysir fyrirfram ákveðna þraut.

Forritarar framtíðarinnar

Sjóðurinn „Forritarar framtíðarinnar“ er samfélagsverkefni sem hefur það hlutverk að efla forritunar- og tæknimenntun í grunn- og framhaldsskólum landsins. Nýherji er einn af hollvinum sjóðsins ásamt nokkrum fyrirtækjum.

First Lego hönnunarkeppnin á vegum Háskóla Íslands

Markmið First Lego League keppninnar er að blása ungu fólki í brjóst löngun til að skara fram úr á sviði tækni og vísinda, gera grunnskólanemendum kleift að vinna saman, taka þátt í nýsköpun og framleiðslu á lausnum sem og að efla sjálfstraust, leiðtogahæfni og lífsleikni.

Stjórn og stjórnar­hættir

Stjórn Nýherja fjallar reglubundið um stjórnarhætti og heldur árlega sérstakan fund um störf stjórnar og stjórnarhætti. Stjórnin telur mikilvægt að stjórnarhættir séu stöðugt endurmetnir, til að mæta breyttum lögum og reglum og þróun á sviði stjórnunar og stjórnarhátta.

Stjórnarhættir

Stjórn Nýherja hf. leitast við að viðhalda stjórnarháttum og fylgja „leiðbeiningum um stjórnarhætti fyrirtækja“, sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq OMX Iceland og Samtök atvinnulífsins gáfu út í mars 2012. Stjórnin hefur sett sér ítarlegar starfsreglur þar sem valdsvið hennar er skilgreint og verksvið gagnvart forstjóra. Í þeim er meðal annars að finna reglur um fundarsköp, fundargerðir stjórnar, ítarlegar reglur um hæfi stjórnarmanna til þátttöku við afgreiðslu mála og reglur um þagnarskyldu. Þar eru einnig reglur um upplýsingagjöf forstjóra gagnvart stjórn og ákvörðunarvald stjórnar, en undirritun meirihluta stjórnarmanna skuldbindur félagið.

Núgildandi starfsreglur stjórnar voru samþykktar á stjórnarfundi 28. október 2011 og eru þær aðgengilegar á vef félagsins, www.nyherji.is. Stjórn félagsins hefur skipað endurskoðunarnefnd og eru reglur nefndarinnar aðgengilegar á heimasíðu félagsins. Stjórn félagsins á fundi með endurskoðendum félagsins við hvert ársfjórðungsuppgjör. Stjórn hefur ekki talið þörf á að skipa tilnefningarnefnd.

Á árinu 2014 voru haldnir 19 stjórnarfundir og 7 fundir í endurskoðunarnefnd Nýherja og mæta endurskoðendur á alla fundi endurskoðunarnefndar. Meirihluti fulltrúa hefur mætt á fundi stjórnar og endurskoðunarnefndar

Stjórn Nýherja hf.

Samkvæmt samþykktum félagsins fer stjórn Nýherja hf. með æðsta vald í málefnum félagsins á milli hluthafafunda. Stjórnin ákveður stefnu Nýherjasamstæðunnar og fylgir eftir meginverkefnum í starfsemi samstæðunnar. Fyrir stjórn er lögð rekstrar- og fjárfestingaáætlun til staðfestingar og fylgist stjórnin reglubundið með framvindu þeirra áætlana innan ársins. Stjórn ákveður skipulag og fylgir því eftir að starfsemi félagsins fari fram í samræmi við samþykktir hennar. Stjórnin skal tryggja að nægilegt eftirlit sé með meðferð fjármuna félagsins og að góð regla sé á bókhaldi og uppgjöri.

Stjornbw
Aftari röð frá vinstri: Loftur Bjarni Gíslason, Ágúst Sindri Karlsson, Benedikt Jóhannesson og Guðmundur Jóh. Jónsson.
Fremri röð frá vinstri: Hildur Dungal, Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, og Marta Kristín Lárusdóttir.

Í stjórn Nýherja sitja fimm menn og einn til vara og er stjórnin kjörin á aðalfundi til eins árs í senn. Samkvæmt samþykktum skulu þeir sem hyggjast gefa kost á sér til setu í stjórn félagsins tilkynna það skriflega til stjórnar að minnsta kosti fimm sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar og eru þeir einir kjörgengir, sem þannig hafa gefið kost á sér. Formaður kveður stjórn til fundar og stýrir stjórnarfundum. Fundi skal halda hvenær sem formaður telur þess þörf, en að auki er honum skylt að boða stjórnarfund að kröfu eins stjórnarmanns eða forstjóra. Stjórnarfundir eru því aðeins lögmætir að mættir séu þrír stjórnarmenn eða fleiri.

Hlutverk forstjóra

Stjórn Nýherja hf. ræður forstjóra félagsins og ákveður starfskjör hans. Forstjóri er ábyrgur fyrir daglegri starfsemi félagsins í samræmi við samþykktir þess, stefnu og ákvörðun stjórnar. Forstjóri skal vinna að stefnumótun og framþróun félagsins ásamt því að skipuleggja og fylgja eftir daglegum rekstri þess. Þá er hlutverk forstjóra að tryggja að starfsemi félagsins sé í samræmi við gildandi löggjöf og reglur hverju sinni og fylgja því eftir að starfsemi dótturfélaga sé með sama hætti.

Hluthafafundir

Æðsta vald í málefnum félagsins er í höndum lögmætra hluthafafunda. Aðalfundur skal haldinn fyrir lok júnímánaðar ár hvert og hluthafafundi skal halda eftir ákvörðun stjórnar eða að kröfu kjörins endurskoðanda eða hluthafa, sem ráða að minnsta kosti 1/20 hlutafjár í félaginu. Krafa um hluthafafund skal gerð skriflega, fundarefni tilgreint og fundur þá boðaður innan lögmæts frests. Til hluthafafundar skal boða með birtingu auglýsingar í dagblaði eða með öðrum sambærilegum hætti. Aðalfund skal boða með minnst þriggja vikna og mest fjögurra vikna fyrirvara samkvæmt breytingum á hlutafélagalögum frá 19. desember 2009. Í fundarboði skal gerð grein fyrir fundarefni og þeim skjölum og tillögum sem lögð verða fyrir fundinn. Á hluthafafundum fylgir eitt atkvæði hverjum hlut í félaginu. Aðalfundir félagsins eru almennt haldnir í febrúarmánuði ár hvert.

Breytingar á samþykktum félagsins

Samþykktum félagsins má einungis breyta á löglegum hluthafafundi þess og skal þess rækilega getið í fundarboði að fyrir liggi tillaga um breytingar á samþykktum og í hverju hún felist í meginatriðum. Ákvörðun verður því aðeins gild að hún njóti minnst 2/3 hluta greiddra atkvæða svo og samþykkis hluthafa sem ráða 2/3 hlutum þess hlutafjár sem farið er með atkvæði fyrir á hluthafafundum. Síðast voru gerðar breytingar á samþykktum Nýherja hf. á aðalfundi félagsins 18. febrúar 2011.

Endurskoðendur

Endurskoðendur félagsins eru kjörnir á aðalfundi til eins árs í senn. Á aðalfundi 2014 var KPMG ehf. kjörinn endurskoðandi félagsins og er KPMG ehf. einnig endurskoðandi allra dótturfélaga félagsins á Íslandi. KPMG annast endurskoðun á dótturfélögum í Svíþjóð.

Fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum

Nýherji er fyrirmyndarfyrirtæki í góðum stjórnarháttum samkvæmt mati Rannsóknarmiðstöðvar um stjórnarhætti við Háskóla Íslands, að undangenginni ítarlegri úttekt Capacent á haustmánuðum 2014.

10 stærstu hluthafar
nýherja 31. 12. 2014

329 hluthafar

Hluthafar tafla mobile